Nýverið héldu Brynhildur Sigurðardóttir skólastjóri Garðaskóla, Margrét Harðardóttir skólastjóri Hofsstaðaskóla og Arnheiður Ösp Hjálmarsdóttir deildarstjóri í Hofsstaðaskóla  kynningu á þróunarverkefninu SKÍN á ársfundi Skólastjórafélags Íslands sem haldinn var í Reykjanesbæ þann 9.október 2015. Kynningin fór fram í svokölluðum menntabúðum sem eru þannig byggðar upp að munnlega er sagt frá verkefninu og vettvangur til spurninga og samræðu skapaður. SKÍN verkefnið var kynnt tvisvar og fjöldi þátttakenda sprengdi upp umræðuformið. Haldnar voru tvær kynningar og það mættu um 40 manns á fyrri kynninguna og 30 á seinni. Arnheiður, Brynhildur og Margrét löguðu sig að þessum aðstæðum með því að segja stuttlega frá verkefninu og varpa síðan spurningum til þátttakenda. Gögnum sem tengjast SKÍN verkefninu var dreift til fundargesta.

SKÍN verkefnið er samstarfsverkefni kennara í Garðaskóla og Hofsstaðaskóla og er styrkt af Þróunarsjóði grunnskóla í Garðabæ og Sprotasjóði. Markmið verkefnisins eru að gera námsmarkmið sýnilegri nemendum og foreldrum í daglegu skólastarfi og efla innra mat skóla. Verkefnastjórn verkefnisins er í höndum Menntaklifsins.

Edda Björg Sigurðardóttir skólastjóri í Sjálandsskóla tók þátt í umræðum fyrri hópsins. Hún lauk nýverið meistaranámi við Menntavísindasvið HÍ. Hennar innlegg var að segja frá lokaritgerð sinni sem nefnist: Það að öðlast virðingu er að sýna hana : Að tileinka sér þjónandi forystu með áherslu á hag annarra í gegnum kennslustundarýni stjórnenda.

Menntaklifið tók þær Arnheiði og Brynhildi tali og bað þær um að segja nánar frá kynningunni á ársfundinum.

Sagt var frá aðdraganda verkefnisins og hvernig hugmyndin að verkefninu kviknaði. Verkefnið á uppruna sinn í Evrópusamstarfsverkefni Garðabæjar og Southend on Sea í Bretlandi. Í gegnum það verkefni heimsóttu skólastjórnendur og kennarar í Garðabæ Shoeburyness High School í Bretlandi sem vakið hefur athygli fyrir öflugt innra starf og samfara því stóraukinn námsárangur nemenda. Í SKÍN verkefninu er ætlunin að nýta ákveðin tæki sem kennarar og stjórnendur kynntust í Shoeburyness til að gera markmið náms sýnilegri nemendum í daglegu starfi. Einnig er ætlunin að þróa kennslustundarýni þar sem stjórnendur fara inn og fylgjast með störfum kennara og veita þeim uppbyggilega umsögn í kjölfarið. Verkefnið varðar kjarna skólastarfsins og það er líklega ástæða þess hversu margir þátttakendur á þingi Skólastjórafélagsins höfðu áhuga á að kynna sér verkefnið nánar. SKÍN hópurinn sagði frá því hvað fælist í þróunarverkefninu, hvað væri gert í vetur og hvað yrði unnið með á næsta ári. Talað var út frá dreifiriti sem útbúið var fyrir kynninguna og tilgreindi forsögu og markmið verkefnisins. Einnig sýndi hópurinn gögn sem kennarar og stjórnendur í Garðaskóla og Hofsstaðaskóla eru byrjaðir að nýta og þróa áfram.

Hverjar voru viðtökurnar?

Viðtökurnar voru framar vonum, því mun fleiri sóttu menntabúðina heldur en við áttum von á. Við höfðum með okkur 20 ljósrit af ákveðnum gögnum sem við ætluðum að dreifa en það þurfti að ljósrita mun meira. Fólk var jákvætt fyrir verkefninu og áhugasamt að hlusta á það sem við höfðum frá að segja. Í kjölfar ráðstefnunnar hafði a.m.k . einn skóli í Reykjavík samband við SKÍN hópinn og vildi fá nánari kynningu inn á kennarafund seinna í vetur.

Um hvað spurðu skólastjórnendur?
Það var spurt um það hvort allir í skólanum væru þátttakendur í verkefninu. Útskýrt var að um 20-30% kennara í hvorum skóla væru þátttakendur í verkefninu og hefðu þar með ráðandi áhrif á það hvaða tæki nýtt yrðu í skólunum og hvernig þau myndu þróast.

Einnig var spurt um það hvort kennarar fengju að hafa áhrif á matslistann. Edda Björg sagði frá vinnu sinni með kennurum í Sjálandsskóla við að skilgreina þau atriði sem horft væri til í kennslustundarýni. Í Hofsstaðaskóla hafði svipuð undirbúningsvinna verið unnin fyrir nokkrum árum. Þar hafa matslistar ekki verið bornir undir kennara á hverju ári en byggja á þeim grunni sem kennarahópurinn setti í sameiningu. Í Garðaskóla eru matslistar ekki komnir í notkun en SKÍN hópurinn mun þróa þá í vetur.

Margir fundargestir höfðu áhuga á að fá afrit af þeim gögnum sem SKÍN hópurinn var með á fundinum. Einnig spurði fólk hvort það væri möguleiki á að heimsækja skólana og hvort við vildum kynna verkefnið í öðrum skólum.

Væri hægt að gera verkefnið sýnilegra?
Við getum sett upp opinn vef um verkefnið til að deila gögnum og sögum af framgangi vinnunnar. Það væri gott aðhald fyrir okkur sjálf í verkefninu en einnig góður gagnabanki fyrir þá aðila sem vilja fara í svipaða vinnu.