Velferð barna í Garðabæ er verkefni sem stuðlar að samvinnu allra skólastofnanna og íþrótta- og tómstundafélaga um heildstæða stefnu er varðar jafnrétti, kynheilbrigði og velferð barna.

Megin inntak verkefnisins skiptist í verklag, fræðsluyfirlit og námskeið.

  • Heildstætt og samræmt verklag og vinnuaðferðir vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna, fyrir alla þá aðila sem starfa með börnum í Garðabæ.
  • Fræðsluyfirlit sem nær yfir hugtökin ofbeldi, kynjafræði, jafnrétti og kynheilbrigði á víðtækan hátt og er ætlað börnum, ungmennum, starfsfólki og foreldrum. Með hverju efni er að finna upplýsingar um útgefanda, hverskonar efni er um að ræða, fyrir hverja efnið er, vefslóðir og lykilhugtök sem tengjast efninu. Efninu er raðað í stafrófsröð og er að finna hér.
    • Mælst er til að aðilar að velferð barna nýti þetta leiðbeinandi fræðsluyfirlit sem verkfæri til þess að samþætta málefnin í námskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla, félags­miðstöðva, félaga og hjá öllum þeim er vinna með börnum í Garðabæ.
  • Grunnnámskeið A og B sem fjalla annars vegar um ofbeldi, vanrækslu og áhættuhegðun barna og hins vegar um kynheilbrigði, jafnrétti og sjálfsímynd.

Ábendingar um fræðsluefni, fyrirlestra og námskeið eru vel þegnar og spurningar eru einnig velkomnar. Þeim má koma á framfæri í tölvupósti á karitasbja@gardaskoli.is.


Saga verkefnisins

Vinnan að nýrri hugmynd um velferðarstefnu barna í Garðabæ hófst í kjölfar mikillar vitundarvakningar sem átti sér stað árið 2012 á vegum innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Verkefnið hlaut fyrst um sinn styrk úr sprotasjóði árið 2013 og var markmiðið að móta stefnu og samræmda verkferla um kynheilbrigði og velferð barna þvert á stofnanir sem á einhvern hátt sinna barna- og unglingastarfi í Garðabæ. Skipaður var samráðshópur (2013-2015) þvert á skólasamfélagið og stofnanir í Garðabæ. Samráðshópurinn aflaði gagna á sínum vinnustað, svo að hægt væri að sjá hvað væri til staðar og hvað þyrfti að bæta á hverjum stað fyrir sig. Þá var ráðinn var stýrihópur (2013-2015) til að hafa umsjón með verkefninu og hann skipuðu Ágústa Guðmundsdóttir og Ásta Sölvadóttir hjá Menntaklifi, Elísabet Gunnarsdóttir úr Álftanesskóla, Guðrún Sigurðardóttir úr Hofsstaðaskóla og Guðrún Hrefna Sverrisdóttir hjá fjölskyldusviði Garðabæjar. Stýrihópur ásamt fulltrúum í samráðshóp unnu í sameiningu að þarfagreiningu og stöðuskýrslu, verklagi vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna og fræðsluyfirliti fyrir börn, starfsfólk og foreldra. Stýrihópur fékk í lið með sér þær Ólöfu Ástu Farestveit hjá Barnahúsi og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur til að aðstoða við gerð og þróun tveggja 90 mínútna námskeiða, svo að hver og ein skólastofnun ætti auðveldara með að tileinka sér verkefnið og innleiða. Verkefnið hefur hlotið styrki úr Sprotasjóði, þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ og Mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar.