striking-a-balance

Lærdómsríkt Evrópusamstarfsverkefni að baki

Nýverið lauk tveggja ára Evrópusamstarfsverkefni Garðabæjar og Southend-on-Sea í Bretlandi. Kveikjuna að verkefninu má rekja til hugmynda um heildstætt skólasamfélag í Garðabæ fyrir börn frá 18 mánaða til 18 ára og fljótandi skil milli skólastiga. Meginmarkmið verkefnisins var að læra og þróa aðferðir í skólastarfi sem gera kennurum kleift að mæta hverjum og einum nemanda með krefjandi og áhugaverðum verkefnum og hámarka árangur hvers og eins.

Á verkefnatímanum skiptust skólastjórnendur og kennarar í öllum grunnskólum Garðabæjar, Fjölbrautaskólans í Garðabæ og skólafólk frá Southend-on-Sea á fjölmörgum heimsóknum milli fræðsluumdæmanna. Shoeburyness skólinn og Dr. Dave Anderson, breskur sérfræðingur í skólastjórnun voru helstu tengiliðir verkefnisins ytra. Ásta Sölvadóttir hjá Menntaklifinu sá um verkefnastjórn fyrir hönd Garðabæjar.

Fljótlega kom í ljós að Shouburyness skólinn hafði alla samstarfsfletina sem Garðabær var að leita eftir í samstarfinu við Southend-on-Sea. Skólinn hefur náð framúrskarandi árangri á síðustu 8 árum skv. Ofsted matskerfinu á gæðum skólastarfs í Bretlandi. Stjórnendur og kennarar Shouburyness miðluðu af reynslu sinni af því hvernig þeir fóru í gegnum breytingarferlið sjálfir og hvernig hægt er að fara nýjar leiðir í þróun skólastarfs. Stjórnendur og kennarar í Garðabæ miðluðu af sinni reynslu af skólastarfi hérlendis. Afrakstur verkefnisins fólst í lærdómssamtölum milli skólafólksins í Garðabæ og Shouburyness skólans.

Markmiðssetning, virk endurgjöf og kennslustundarýni í Shouburyness

Skólastjórnendur og kennarar úr Garðabæ fóru í fjórar ferðir í Shouburyness skólann. Skólinn hefur vakið athygli fyrir öflugt innra starf og samfara því stóraukinn námsárangur nemenda. Í Shouburyness skólanum eru markmið náms í forgrunni og markmið hverrar kennslustundar ávallt sýnileg nemendum uppi á töflu (must-should-could). Því vita nemendur ávallt til hvers er ætlast af þeim í náminu og gerir það hverja kennslustund markvissari.

Kennarar í Shouburyness notast við virka endurgjöf í námi nemenda sinna. Nemendur vinna t.d. ákveðin verkefni í hverri grein sem kennarinn fer svo yfir og gefur nemanda umsögn (feed back). Nemandinn bætir síðan verkefnið ef þörf er á og kennarinn rýnir aftur í sama verkefni (feed forward) og gefur nemanda aftur umsögn (feed back / feed forward).

Stjórnendur og kennarar í Shouburyness hafa einnig þróað svokallað kennslustundarýni þar sem stjórnendur og samstarfsfólk fer inn í kennslustundir og fylgist með störfum kennara og veitir þeim uppbyggilega umsögn í kjölfarið.

Fljótandi skil milli skólastiga, einstaklingsmiðað nám og námsmat

Bretarnir komu í þrjár heimsóknir til Garðabæjar á verkefnatímanum. Í fyrstu heimsókninni, í febrúar 2014, hélt Dr. Dave Anderson erindi fyrir skólastjórnendur í Garðabæ um nám og kennslu. Í annarri heimsókn Bretanna í október sama ár kynntu þeir sér uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar sem stuðlar að gleði og vellíðan nemenda og kennara. Þeir fengu einnig fræðslu um útikennslu á Íslandi og Evrópusamvinnu, en skólarnir í Garðabæ hafa mikla reynslu af slíku starfi. Meginþema heimsóknarinnar var fljótandi skil milli skólastiga og innra mat á skólastarfi.  Rob Wakeling og Bill Peel héldu málstofu um einstaklingsmiðað nám í Shoeburyness skólanum sem var mjög vel sótt af stjórnendum, námsráðgjöfum, fagstjórum og meirihluta kennara í Garðabæ. Bretarnir komu í sína þriðju og síðustu heimsókn í júní 2015. Meginþema síðustu heimsóknarinnar var lýðræðisleg vinnubrögð, að læra gegnum leik, nýsköpun í námi, námsmat og umræður um breytingar á námsmati og námsmatskvörðum í báðum löndum.

Sjálfstæði, sköpunarfærni og áhersla á hæfni í Garðabæ

Bretarnir tóku eftir því hversu mikil áhersla er lögð á sköpun í námi íslenskra nemenda og hversu sjálfstæðir íslenskir nemendur eru í námi sínu. Þeim fannst meira stress áberandi í skólum í Bretlandi, enda eru bresk skólayfirvöld sífellt að setja fram ný markmið og þar fara fram stöðugar mælingar á framförum nemenda. Eftir að hafa kynnst starfinu í skólunum í Garðabæ hafa kennarar í Shouburyness lagt sig fram við að efla sköpunarþáttinn í námi nemenda sinna t.d. með því að bjóða nemendum upp á meira val um fjölbreytt skil á heimavinnu. Kennararnir vinna einnig að því að efla sjálfstæði nemenda í Shouburyness.

Í Shouburyness er verið að innleiða nýtt námsmat líkt og verið er að gera hérlendis. Skólinn hefur breytt um áherslur í námsmatinu og metur nú þróun á hæfni nemenda líkt og verið er að innleiða hérlendis.

Niðurstaða verkefnis: Jafnvægi í námi og kennslu

Verkefnið gaf skólafólki í Garðabæ rík tækifæri til samvinnu milli skóla og skólastiga og hefur samvinna milli skóla og skólastiga eflst í kjölfarið. Samvinna Shouburyness skólans við aðra skóla í nágrenni skólans hefur einnig eflst.

Í íslenskum skólum er lögð meiri áhersla á hæfniþróun nemenda en í Bretlandi og íslenskir kennarar hafa meira frjálsræði í starfi og því ríkari tækifæri til sköpunar. Í Bretlandi er meiri áhersla lögð á markmiðssetningu og framfarir í námi og kennslu. Því þurfa breskir kennarar að ná markmiðum settum af skólanum til þess að fá framgang og launahækkun í starfi. Á Íslandi eru ekki tengsl milli frammistöðu kennara og launa.

Niðurstaða verkefnisins var “Striking a balance. A balanced approach to teaching and learning” eða þörfin fyrir jafnvægi í námi og kennslu.

Að jafnvægi sé milli markmiða og mælinga á árangri annars vegar og heildrænnar sýnar á skólastarfið hins vegar.  Að hæfniþróun felst í jafnvægi milli þekkingar og leikni, jafnvægi milli stöðugleika og sköpunarfærni og jafnvægi milli faglegs sjálfstæðis og jafnréttis til náms fyrir alla nemendur.

Næstu skref:

Hafin er áframhaldandi vinna í kjölfar verkefnisins með nýju verkefni sem kallast SKíN, Innra mat til eflingar faglegs skólastarfs. SKÍN verkefnið er samstarfsverkefni kennara í Garðaskóla og Hofsstaðaskóla og styrkt af Þróunarsjóði grunnskóla í Garðabæ og Sprotasjóði menntamálaráðuneytisins. Verkefnastjórn er í höndum Menntaklifsins. Markmið verkefnisins eru að gera námsmarkmið sýnilegri nemendum og foreldrum í daglegu skólastarfi og efla innra mat skóla. Í SKÍN verkefninu er ætlunin að nýta ákveðin tæki sem kennarar og stjórnendur kynntust í Shoeburyness til að gera markmið náms sýnilegri nemendum í daglegu starfi. Einnig er ætlunin að þróa kennslustundarýni þar sem stjórnendur fara inn og fylgjast með störfum kennara og veita þeim uppbyggilega umsögn í kjölfarið.

 Að lokum:

Evrópusamstarfsverkefnið var gjöfult lærdómsferli fyrir báða samstarfsaðila fyrir margra hluta sakir. Bæði löndin ganga í gengum breytingarferli í námsmati vegna nýrra áherslna í námskrám um þessar mundir.  Bretarnir eru að breyta einkunnagjöf nemenda úr bókstöfum yfir í tölur og á Íslandi er verið að breyta námsmati úr tölum yfir í bókstafi.  Skólafólk í hvoru landi fyrir sig er því niðursokkið við að finna nýja mælikvarða á nám nemenda. Lærdómssamtölin undanfarin tvö ár hafa því reynst einkar áhugaverð og gagnleg í því breytingarferli sem íslenskt og breskt skólafólk stendur frammi fyrir í dag.