Verkefninu „Hlýjar hugsanir“ var hleypt af stokkunum íSjálandsskóla sl. miðvikudag. Verkefnið gengur út á að nemendur, fjölskyldur þeirra, kennarar, starfsfólk skólans og allir aðrir sem hafa áhuga prjóna húfur sem verða sendar til flóttafólks á lestarstöðinni í Vínarborg af þarlendum skólabörnum.

Allt garn vel þegið

Silja Kristjánsdóttir, textílkennari í Sjálandsskóla átti frumkvæði að verkefninu. Hugmyndin kviknaði eitt kvöldið þegar hún sat heima og horfði á fréttatímann. „Mér datt í hug að það væri gaman að fá krakkana til að vinna verkefni sem fengi þau til að tengja við málefni flóttafólks sem eru í fréttum alla daga og gefa þeim um leið tækifæri til að finna að þau geta gert gagn og að þeirra framlag skiptir máli,“ segir Silja sem lét ekki þar við sitja. Frá 18. nóvember til 1. desember verður opið í textílstofunni hjá henni í öllum frímínutum og hádegishléum fyrir nemendur sem hafa áhuga á að koma að prjóna. „Það þarf ekki að prjóna heila húfu heldur er hægt að grípa í prjóna í smá stund og þannig vinna margar hendur létt verk. Í tilefni verkefnisins er allt garn vel þegið í skólanum. Þá má líka prjóna heima, stórar og litlar húfur, einfaldar eða flóknar.“

Opið hús á laugardaginn

Laugardaginn 21. nóvember verður opið hús í hátíðarsal skólans kl. 11 og 14. Þá geta nemendur komið með mömmu og pabba, afa og ömmu, systkinum eða öðrum áhugasömum og prjónað húfur. Þá gildir það sama, ekki þarf að prjóna heila húfu, nokkrar umferðir skipta líka máli. Þá geta þeir sem ekki kunna að prjóna einnig hjálpað til með ýmsum hætti svo sem með því að búa til dúska á húfurnar, sauma á þær endurskinsmerki og merkja þær. Það mætti líka hella upp á kaffi, blanda djús eða deila út piparkökum.

Leitað eftir aðstoð við flutning

Verkefnið endar á því að 5. og 6. bekkur sér um að pakka húfunum dagana 2. og 3. desember. Skólinn er kominn með tengilið í Vínarborg sem mun hafa milligöngu um að deila út húfunum, með hjálp þarlendra skólabarna, en enn á eftir að finna út úr því hvernig húfunum verður komin þangað. Aðstoð varðandi það er vel þegin.

Starfsfólk Sjálandsskóla er spennt fyrir verkefninu sem það lítur á sem kjörið tækifæri til kennslu og umræðna um málefni líðandi stundar og að gaman verði að leyfa nemendum að upplifa að framlagþeirra skiptir máli. (Frétt frá vef Garðabæjar)

Facebook síða um verkefnið Hlýjar hugsanir.

Frétt á mbl um framtakið hlýjar hugsanir

Hlýjar hugsanir í Sjálandsskóla

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *